Welbeck er alvarlega meiddur

Danny Welbeck hefur skorað 5 mörk í 16 leikjum fyrir …
Danny Welbeck hefur skorað 5 mörk í 16 leikjum fyrir Arsenal í haust. AFP

Enski landsliðsframherjinn Danny Welbeck meiddist alvarlega á ökkla í leik með Arsenal gegn Sporting Lissabon í Evrópudeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Ekki er enn orðið ljóst hve alvarleg meiðslin eru en Arsenal hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að það skýrist á næstu þremur sólahringum. Aðeins sé ljóst að um alvarleg meiðsli á hægri ökkla sé að ræða.

Welbeck meiddist þegar hann lenti illa eftir að hafa hoppað upp til þess að skalla boltann. Hann var borinn af velli eftir að hafa fengið aðhlynningu í nokkurn tíma og súrefnisgrímu. Hann dvelur áfram á sjúkrahúsi á meðan óvissa ríkir um nákvæmt eðli meiðslanna.

Welbeck, sem á að baki 42 landsleiki fyrir England og hefur skorað í þeim 16 mörk, var valinn í landsliðshópinn sem mætir Bandaríkjunum og Króatíu á næstunni. Hann hefur skorað 5 mörk í 16 leikjum fyrir Arsenal á þessari leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert