City á toppinn eftir sigur á Everton

Leikmenn City fagna einu marka sinna á Etihad í dag.
Leikmenn City fagna einu marka sinna á Etihad í dag. AFP

Englandsmeistarar Manchester City áttu ekki í teljandi vandræðum með Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag er þeir unnu 3:1-sigur í einvígi liðanna á Etihad-vellinum í Manchester.

Þrjár af helstu stjörnum City hófu leikinn á bekknum; Raheem Sterling, Sergio Agüero og Kevin de Bruyne, en þeir tveir síðastnefndu eru að snúa til baka eftir meiðsli. Þá var Gylfi Þór Sigurðsson í byrjunarliði Everton og spilaði hann fram að 81. mínútu þegar hann var tekinn af velli en honum tókst ekki að athafna sig mikið á miðjunni í dag.

Gabriel Jesus skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu eftir stungusendingu frá Leroy Sané og snemma í síðari hálfleik var forystan tvöfölduð. Aftur átti Sané stoðsendinguna, nú með fyrirgjöf, og aftur skoraði Jesus, í þetta sinn með skalla.

Dominic Calvert-Lewin minnkaði muninn gegn gangi leiksins fyrir Everton á 65. mínútu með skallamarki eftir fyrirgjöf Lucas Digne en fjórum mínútum síðar innsiglaði Raheem Sterling sigur City með marki sínu, aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inn á völlinn.

Man. City 3:1 Everton opna loka
90. mín. Leik lokið City vinnur sannfærandi og öruggan sigur.
mbl.is