Taprekstur dregur margvíslega dilka á eftir sér

Garry Monk knattspyrnustjóri Birmingham City.
Garry Monk knattspyrnustjóri Birmingham City. AFP

Níu stig verða dregin af Birmingham City í ensku b-deildinni í knattspyrnu þar sem félagið stenst ekki viðmið um sjálfbærni í rekstri sem sett eru af enska knattspyrnusambandinu. 

Mikill taprekstur var á félaginu árið 2018 og í raun var félagið rekið með tapi síðustu þrjú árin. Samkvæmt heimildum Sky Sports verður félaginu refsað með því að níu stig verða dregin af liðinu á þessu keppnistímabili. 

Birmingham er í 13. sæti með 50 stig en hrapar niður í baráttu um að halda sæti sínu í deildinni verði þessi refsing að veruleika. Liðið væri þá fimm stigum fyrir ofan fallsæti. 

Knattspyrnustjórinn Garry Monk er með Íslandstengingar. Hann stýrði Gylfa Þór Sigurðssyni hjá Swansea og sem leikmaður var hann undir stjórn Guðjóns Þórðarson hjá Barnsley. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert