Segja að Solskjær verði ráðinn í vikunni

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Manchester United muni í vikunni tilkynna um ráðningu Ole Gunnar Solskjærs í starf knattspyrnustjóra félagsins til frambúðar en hann var ráðinn til að stýra liðinu út leiktíðina eftir að José Mourinho var rekinn í desember.

Undir stjórn Norðmannsins hefur Manchester United unnið 14 af 19 leikjum sínum. Liðið er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti en það er í fimmta sæti, tveimur stigum á eftir Arsenal. Þá er United komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem það mætir Barcelona í næsta mánuði.

Enska blaðið Daily Mail segir að tilkynnt verði um ráðingu á Ole Gunnar fyrir leik Manchester United gegn Watford á laugardaginn. Reiknað er með að samningurinn gildi til ársins 2022 og mun Solskjær fá 7,5 milljónir punda í árslaun en sú upphæð jafngildir 1,2 milljörðum íslenskra króna. Þetta er helmingi lægri laun en José Mourinho fékk hjá Manchester-liðinu.

mbl.is