Rafa tætir eiganda Newcastle í sig

Rafael Benítez fór ekki í góðu frá Newcastle.
Rafael Benítez fór ekki í góðu frá Newcastle. AFP

Rafael Benítez, sem lét af störfum sem knattspyrnustjóri Newcastle í sumar, hefur svarað vel fyrir sig eftir að forráðamenn félagsins fóru opinberlega að gagnrýna hann eftir brotthvarfið.

Benítez er nú tekinn við Dalian Yifang í Kína og hafa topparnir hjá Newcastle talað um að hann hafi verið orðinn gráðugur í peninga og valið þá fram yfir hollustu við félagið. Benítez skrifar í pistli að ef það væri málið hefði hann verið löngu farinn frá Newcastle.

„Stjórn Newcastle hafði heilt ár til þess að útbúa nýjan samning, en svo þegar við settumst niður eftir síðustu leiktíð þá var mér ekki boðið neitt sem mér þótti viðunandi. Mér var sagt að félagið vildi ekki eyða pening í akademíuna eða æfingasvæðið. Ég get alveg opinberað þær ástæður ef þeir vilja það,“ skrifar Benítez í pistli sínum.

„Eftir þennan fund vissi ég að þeir myndu ekki koma með alvarlegt tilboð til mín. Þegar næsta tilboð til mín svo kom 19 dögum seinna gerði það ráð fyrir sömu launum og fyrir þremur árum, en ég myndi hafa minna að segja um leikmannakaup. Eftir þrjú ár af sviknum loforðum treysti ég þeim einfaldlega ekki lengur,“ skrifar Benítez.

Eftir að hann fór var Steve Bruce ráðinn eftirmaður hans, nokkuð sem ekki hefur farið vel í stuðningsmennina.

mbl.is