Viljum helst ekki spila við Liverpool

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því …
Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að mæta Liverpool um næstu helgi. AFP

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, viðurkennir að hann væri alveg til í að sleppa við það að mæta Liverpool um næstu helgi. Bæði Arsenal og Liverpool eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í deildinni en liðin mæast á Anfield, heimavelli Liverpool, í stórleik deildarinnar um næstu helgi.

„Frá mínum bæjardyrum séð þá er Liverpool lið sem ég vil alls ekki mæta,“ sagði Emery léttur á blaðamannafundi um helgina. „Ég væri alveg til í að sleppa því að spila við þá ef ég á að vera hreinskilinn en að sama skapi er þetta góð prófraun fyrir okkur sem lið, fyrir félagið og auðvitað stuðningsmennina.“

„Við erum með sex stig eftir tvo leiki og erum ósigraðir sem er góð tilfinning. Við förum á Anfield fullir sjálfstrausts og markmiðið okkar sem lið er að brúa bilið á stærstu lið Englands, Liverpool, Manchester City, Tottenham og Chelsea. Þetta er góð prófraun fyrir liðið til þess að átta sig á því hvert við erum komnir sem lið,“ sagði Emery.

mbl.is