Meiðsli Tammy Abraham enn óljós

Leikmaðurinn fór meiddur af velli fyrr í vikunni.
Leikmaðurinn fór meiddur af velli fyrr í vikunni. AFP

Ekki er ljóst hversu lengi sóknarmaður Chelsea, Tammy Abraham, verður frá keppni. Hann meiddist á mjöðm í leik enska liðsins gegn Valencia í Meistaradeild Evrópu fyrr í vikunni. Abraham hefur leikið afar vel með liðinu á þessu tímabili en hann hefur skorað ellefu mörk það sem af er.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, segist ekki geta gefið upp hvenær leikmaðurinn mun snúa aftur. Abraham verður ekki með Chelsea þegar liðið mætir West Ham á morgun.

„Þetta kemur í ljós strax eftir helgi. Hann finnur fyrir sársauka og verður af þeim sökum ekki með á morgun. Við munum vita það á mánudag hversu lengi þetta mun halda honum frá keppni,“ segir Lampard.

mbl.is