Hefði bara eldað egg og pylsur

José Mourinho er klár í slaginn á Old Trafford í …
José Mourinho er klár í slaginn á Old Trafford í kvöld. AFP

José Mourinho var talsvert gagnrýndur fyrir að búa á hóteli í Salford, rétt utan við Manchester, allan tímann sem hann var knattspyrnustjóri Manchester United. Hann sagði í viðtali við SkySports að ekkert annað hefði komið til greina af sinni hálfu.

Mourinho mætir aftur á Old Trafford í kvöld, í fyrsta skipti eftir að hann var rekinn þaðan í desember 2018, en hann var á dögunum ráðinn stjóri Tottenham og liðin mætast klukkan 19.30 í kvöld. Spurður um hóteldvölina í Manchester sagði Mourinho að hún hefði verið frábær og hann hefði ekki viljað hafa hlutina öðruvísi.

„Mér hefði ekki liðið vel ef ég hefði verið með íbúð út af fyrir mig. Þá hefði ég þurft að þrífa, sem ég vil ekki, ég hefði þurft að strauja, sem ég kann ekki, og ég hefði ekki eldað neitt nema egg og pylsur því það er það eina sem ég kann.

Ég bjó í ótrúlegri íbúð á hótelinu. Það var ekki herbergi og var mitt allan tímann. Ég var ekkert á förum að viku liðinni, þarna átti ég heima. Ég  gat skilið allt eftir, sjónvarpið, bækurnar og tölvuna. Þetta var íbúð þar sem ég gat pantað mér kaffi latte eða látið færa mér kvöldmatinn á herbergið ef ég vildi ekki fara niður,“ sagði Mourinho um lífið á hótelinu.

„Ef ég var að horfa á fótbolta eða vinna með einhverjum aðstoðarmanna minna gat ég beðið um að okkur væri færður matur. Ég hafði allt. Ef ég hefði verið einhvers staðar einn í íbúð hefði þetta verið mun erfiðara. Þarna leið mér vel, miklu meira en vel,“ sagði Mourinho.

Viðureign Manchester United og Tottenham hefst klukkan 19.30 á Old Trafford og er leikurinn í beinni útsendingu á Símanum Sport og í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert