Hrifinn af löndum sínum hjá Liverpool

Roberto Firmino og Alisson með heimsmeistarabikar félagsliða.
Roberto Firmino og Alisson með heimsmeistarabikar félagsliða. AFP

Knattspyrnugoðsögnin Kaká er hrifinn og stoltur af samlöndum sínum frá Brasilíu sem spila með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool er með þrjá Brasilíumenn í liði sínu; markvörðinn Alisson, miðjumanninn Fabinho og sóknarmanninn Roberto Firmino, og telur Kaká þá vera meðal bestu leikmanna heims í sínum stöðum.

„Alisson er besti markvörður heims í dag, Fabinho er einn besti miðjumaðurinn og Firmino, ásamt Luis Suárez, er besti framherji heims,“ sagði Kaká í viðtali við Sky Sports en hann sjálfur var valinn besti leikmaður heims árið 2007 er hann fékk Gullboltann, Ballon d'Or.

„Fyrir mig, sem Brasilíumann, er frábært að sjá þá standa sig svona vel í úrvalsdeildinni,“ bætti hann við en Liverpool er langefst í úrvalsdeildinni ensku og ansi líklegt til að verða deildarmeistari í fyrsta sinn í 30 ár.

mbl.is