Eftirsóttur af stórliðum

Willian ætti ekki að vera í miklum vandræðum með að …
Willian ætti ekki að vera í miklum vandræðum með að finna sér nýtt lið í sumar. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Willian er eftirsóttur þessa dagana en samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea rennur út í sumar. Willian er orðinn 31 árs gamall en forráðamenn Chelsea eru tilbúnir að framlengja við Willian til næstu tveggja ára. Willian vill hins vegar fá þriggja ára samning á Stamford Bridge ef hann á að vera áfram hjá félaginu.

Roman Abramovich, eigandi félagsins, hefur aldrei viljað semja til langs tíma við leikmenn sem eru komnir yfir þrítugt og því er talið öruggt að brasilíski landsliðsmaðurinn yfirgefi félagið í sumar. Samkvæmt fjölmiðlum á Englandi ætti leikmaðurinn ekki að vera í vandræðum með að finna sér nýtt lið í sumar.

Spánarmeistarar Barcelona hafa mikinn áhuga á Willian en þeir hafa verið á eftir leikmanninum undanfarin tvö ár. Þá hafa Frakklandsmeistarar PSG einnig mikinn áhuga á leikmanninum sem gæti fyllt skarð Neymar, fari svo að hann yfirgefa félagið í sumar. Þá hefur Willian einnig verið orðaður við Tottenham þar sem hans fyrrverandi stjóri José Mourinho er við völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert