Enska úrvalsdeildin hefst á þjóðhátíðardaginn

Raheem Sterling og félagar í Manchester City spila 17. júní.
Raheem Sterling og félagar í Manchester City spila 17. júní. AFP

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu mun hefja göngu sína á nýjan leik í næsta mánuði eða 17. júní samkvæmt öruggum heimildum BBC. Heil umferð verður svo kláruð fyrir sunnudaginn 21. júní.

Deildin mun hefjast á leikjum Aston Villa - Sheffield United og Manchester City - Arsenal en forráðamenn félaganna og deildarinnar eru að ganga frá síðustu smáatriðunum áður en deildin sjálf staðfestir þessar upplýsingar. Samkvæmt BBC eru félögin þó einróma um að samþykkja þessa áætlun.

Leikirnir tveir fara fram 17. júní eins og fyrr segir eða á þjóðhátíðardegi okkar. Aðrir leikir 30. umferðarinnar verða svo kláraðir næstu daga á eftir. Öll úrvalsdeildarliðin hófu æfingar án takmarkana fyrr í vikunni og áfram verða allir leikmenn og starfsmenn deildarinnar skimaðir tvisvar í viku. Þá verða allir leikir spilaðir án áhorfenda.

Það verða þá liðnir akkúrat eitt hundrað dagar síðan spilaður var leikur Leicester og Aston Villa 11. mars en daginn eftir var mótinu aflýst ótímabundið vegna kórónuveirunnar. Liverpool situr á toppi deildarinnar með 25 stig og þarf tvo sigurleiki til viðbótar til að tryggja fyrsta deildarmeistaratitil félagsins í 30 ár. Bournemouth, Aston Villa og Norwich sitja í fallsætunum.

mbl.is