Fallegur árekstur hjá Son og Lloris

José Mourinho ræðir við Son Heung-min í leikslok.
José Mourinho ræðir við Son Heung-min í leikslok. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, var að vonum sáttur eftir 1:0-sigur sinna manna gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á Tottenham Hotspur-vellinum í London í kvöld. Það var Michael Keane, varnarmaður Everton, sem fékk eina mark leiksins skráð á sig en boltinn hafði viðkomu í honum eftir að Giovani Lo Celco lét vaða á markið á 24. mínútu.

Þegar Graham Scott flautaði til hálfleiks lenti Hugo Lloris, fyrirliða Tottenham, og Son Heung-min saman á leið sinni til búningsherbergja en Mourinho tjáði sig um atvikið eftir leik. „Við fundum reglulega og kannski ber ég einhverja ábyrgð á rifrildi þeirra félaga,“ sagði Mourinho í samtali við BBC í leikslok. 

Ég geri miklar kröfur til leikmanna minna og það virðist hafa smitað út frá sér. Ég hef beðið þá um að gera ekki bara kröfur til sjálfs síns heldur líka til liðsfélaga sinna. Son er frábær leikmaður og það líkar öllum vel við hann. Fyrirliðinn sagði honum að gefa meira af sér og vinna betur fyrir liðið, svo einfalt er það.

Stundum þurfa menn að gera kröfur til liðsfélaga sinna svo það sé hægt að taka skref fram á við. Þú þarft að vera sterkur persónuleiki til þess að taka næsta skref og þroskast. Ég var glaður þegar að ég sá að þeir voru að gagnrýna hvorn annan því þetta var fallegur árekstur. Menn eiga að vera með smá blóð á tönnunum,“ bætti Portúgalinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert