Ágreiningur við sviksaman De Gea

David de Gea.
David de Gea. AFP

Markmannsþjálfarinn Emilio Álvarez yfirgaf Manchester United síðasta vetur eftir ágreining við aðalmarkvörð liðsins, David de Gea, en hann segir frá þessu í viðtali við spænska miðilinn AS.

Álvarez kom inn í þjálfarateymi United þegar José Mourinho var knattspyrnustjóri félagsins en hvarf á brott í september á síðasta ári og voru orðrómar á kreiki um að Ole Gunnar Solskjær hafi viljað losna við hann.

Spánverjinn segir það af og frá, hann hafi sjálfur viljað yfirgefa félagið vegna ágreinings við De Gea sjálfan. „Það er ekki satt að United hafi látið mig fara. Eftir að De Gea skrifaði undir nýjan samningi þá bað ég um að fara,“ sagði Álvarez í viðtalinu.

De Gea skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við United í september og var þá launahæsti markvörður heims en þjálfaranum fannst hann fara á bak við sig. „Eftir að hafa unnið með honum í þrjú ár og gert allt til að gera hann að besta markmanni í heimi og eftir að hafa fundað ótt og títt með forráðamönnum félagsins til að gera hann að best launaða leikmanni heims, kemst ég að því að hann skrifað undir nýjan samning án þess að láta mig vita.

Mér fannst hann sviksamur. Þú getur ekki hjálpað einhverjum að verða betri ef þú treystir honum ekki og þess vegna vildi ég fara frá United,“ sagði Álvarez sem greinilega fannst að landi sinn átti ekki að endurnýja samning sinn við félagið án þess að ræða við hann fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert