Man. United og Chelsea í Meistaradeildina - Watford og Bournemouth fallin

Manchester United og Chelsea tryggðu sér 3. og 4. sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í lokaumferðinni sem fór fram í dag. Þá féllu Bournemouth og Watford úr deildinni en þau fara niður ásamt Norwich.

Manchester United heimsótti Leicester á King Power-leikvanginn þar sem liðin mættust í eiginlegum úrslitaleik um meistaradeildarsæti. Gestunum dugði jafntefli en heimamenn þurftu að vinna. Það var svo United sem tók forystuna á 71. mínútu eftir að Jonny Evans braut á Anthony Martial inni í vítateig og Bruno Fernandes skoraði úr vítaspyrnunni. Evans fékk svo beint rautt spjald í uppbótartíma áður en Jesse Lingard innsiglaði sigur United, 2:0, með því að ræna boltanum af Kasper Schmeichel markverði og skora í autt markið.

Leikmenn Chelsea fagna á Stamford Bridge í dag.
Leikmenn Chelsea fagna á Stamford Bridge í dag. AFP

Með sigrinum endar United í 3. sæti deildarinnar með 66 stig og fyrir ofan Chelsea á markatölu sem sömuleiðis spilar í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Chelsea vann 2:0-heimasigur á Wolves þar sem frábært aukaspyrnumark Masons Mounts kom þeim yfir rétt fyrir hálfleik og Olivier Giroud tvöfaldaði forystuna 144 sekúndum síðar.

Tottenham tryggði sér 6. sætið og þar með þátttöku í Evrópudeildinni á næstu leiktíð eftir 1:1-jafntefli á útivelli gegn Crystal Palace. Harry Kane kom gestunum yfir á 13. mínútu en jeffrey Schlupp tryggði heimamönnum stig. Stigið dugði þó José Mourinho og liði hans þar sem Wolves tapaði gegn Chelsea og endar því í 7. sæti. Hvort það dugar úlfunum til að komast í Evrópudeildina fer eftir því hvort Arsenal vinnur enska bikarinn eða ekki, en liðið mætir Chelsea í úrslitaleiknum 1. ágúst.

Bournemouth er fallið þrátt fyrir 3:1-sigur gegn Everton á Goodison Park. Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan leikinn fyrir heimamenn en Joshua King kom gestunum yfir úr vítaspyrnu á 13. mínútu. Moise Kean jafnaði metin á 41. mínútu en Bournemouth bætti við tveimur mörkum. Dominic Solanke kom liðinu yfir rétt fyrir hálfleik og Junior Stanislas skoraði þriðja markið á 80. mínútu.

Harry Kane skorar gegn Crystal Palace í dag.
Harry Kane skorar gegn Crystal Palace í dag. AFP

Það dugði þó ekki til þar sem Aston Villa náði 1:1-jafntefli á útivelli gegn West Ham og bjargaði sér því frá falli, á kostnað Bournemouth og Watford. Villa komst yfir seint í leiknum með marki frá fyrirliðanum Jack Grealish en heimamenn jöfnuðu metin mínútu síðar, Andriy Yarmolenko skoraði á 85. mínútu. Lokatölur 1:1 en það dugði til þar sem Watford tapaði gegn Arsenal 3:2. Tvö mörk frá Pierre-Emerick Aubameyang og eitt frá Kieran Tierney komu heimamönnum í þriggja marka forystu á Emirates-leikvanginum áður en Troy Deeney og Danny Welbeck minnkuðu muninn fyrir gestina en nær komust þeir ekki.

Leikmenn og þjálfarar Aston Villa fagna innilega.
Leikmenn og þjálfarar Aston Villa fagna innilega. AFP

Englandsmeistarar Liverpool fengu bikarinn afhentan í síðasta leik og héldu eflaust einhverjir að þeir væru farnir í sumarfrí þegar Newcastle tók forystuna eftir 26 sekúndur á St. James Park í dag. Meistararnir áttu þó eftir að snúa taflinu við og unnu að lokum 3:1-sigur. Dwight Gayle kom heimamönnum yfir strax í upphafi en Virgil van Dijk jafnaði fyrir hálfleik og Divock Origi og Sadio Mané tryggðu meisturunum sigurinn.

Þá vann Manchester City öruggan 5:0-heimasigur á Norwich. City var öruggt með annað sætið og Norwich löngu fallið á botninum. Gabriel Jesus kom heimamönnum yfir snemma leiks áður en Raheem Sterling, Riyad Mahrez og Kevin de Bruyne (2) bættu við mörkum.

Úrslitin
Arsenal - Watford 3:2
Burnley - Brighton 1:2 
Chelsea - Wolves 2:0
Crystal Palace - Tottenham 1:1
Everton - Bournemouth 1:3
Leicester - Manchester United 0:2
Manchester City - Norwich 5:0
Newcastle - Liverpool 1:3
Southampton - Sheffield United 3:1
West Ham - Aston Villa 1:1

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 16:56 Leik lokið Leikjum lokið Arsenal - Watford 3:2 Burnley - Brighton 1:2 Chelsea - Wolves 2:0 Crystal Palace - Tottenham 1:1 Everton - Bournemouth 1:3 Leicester - Manchester United 0:2 Manchester City - Norwich 5:0 Newcastle - Liverpool 1:3 Southampton - Sheffield United 3:1 West Ham - Aston Villa 1:1
mbl.is