Vissi að Van Dijk yrði lengi frá

Virgil van Dijk er með sködduð liðbönd í hné eftir …
Virgil van Dijk er með sködduð liðbönd í hné eftir ljóta tæklingu Jordan Pickford. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að hann hafi verið sannfærður um að Van Dijk yrði lengi frá vegna meiðsla eftir að hafa séð leikmanninn haltra af velli í 2:2-jafntefli liðsins gegn Everton á Goodison Park í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Van Dijk er með sködduð liðbönd í hné og verður frá í einhverja mánuði, jafnvel út tímabilið ef allt fer á versta veg, en hann hefur verið algjör lykilmaður í liði Liverpool frá því hann kom frá Southampton í janúar 2018.

„Það er alveg ljóst að hann verður frá í einhvern tíma,“ sagði Klopp í samtali við heimasíðu Liverpool í dag.

„Við viljum ekki setja einhvern tímaramma á endurkomu hans, einfaldlega vegna þess að svona meiðsli eru misjöfn, og það er misjafnt hversu langan tíma það tekur menn að koma til baka eftir svona.

Eftir að hafa séð atvikið aftur, strax eftir leik, vissi ég að hann yrði lengi frá. Við erum allir sárir og svekktir með að missa hann í svona meiðsli en svona er fótboltinn. Við erum reiðir en við komumst yfir þetta saman.

Fyrsti dagur endurhæfingarinnar er í dag og núna horfum við fram veginn. Þetta er og verður erfitt bataferli en svona hlutir geta gerst á knattspyrnuvellinum og það þýðir ekki að svekkja sig of mikið á þessu,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert