Stórt skref ef næsti formaður yrði dökkur á hörund

Tyrone Mings í leik með Aston Villa.
Tyrone Mings í leik með Aston Villa. AFP

Tyrone Mings, varnarmaður Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og landsliðsmaður Englands, segir að það yrði stórt skref ef næsti formaður enska knattspyrnusambandsins yrði dökkur á hörund.

„Það yrði auðvitað stórt skref. Það væri afrakstur einhvers sem fjöldi fólks hefur unnið hörðum höndum að,“ sagði Mings í samtali við BBC.

Greg Clarke sagði af sér sem formaður enska knattspyrnusambandsins í gær eftir að hafa viðhaft óviðeigandi ummæli í garð minnihlutahópa á þingfundi um morguninn. Þar vísaði hann meðal annars til leikmanna sem eru dökkir á hörund sem „litaðra.“ Var Clarke harðlega gagnrýndur fyrir þetta orðaval og þrýst á hann að segja af sér, sem hann og gerði síðar um daginn.

Mings segir hörundsdökka leikmenn ekki endilega vera að krefjast þess að næsti formaður knattspyrnusambandsins verði dökkur á hörund. „Við erum einungis að óska eftir jöfnum tækifærum fyrir hörundsdökka, hvíta eða aðra minnihlutahópa.“

„Það er enginn tilgangur með því að setja bara einhvern í þessa stöðu sem mistekst og segja svo; jæja við reyndum þó. Þetta snýst um að bæta ferlið,“ bætti hann við.

Mings sagði þá að ummæli Clarke væru til marks um að enn væri langt í land þegar kæmi að auknu jafnrétti og fjölbreytileika innan ensku knattspyrnuhreyfingarinnar. „Markmiðið er auðvitað að hafa meiri sýnileika á öllum stigum, hvort sem það er við framkvæmdastjórn eða þjálfun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert