City á toppinn eftir sjöunda sigurinn í röð

City-menn léku á als oddi í London í kvöld.
City-menn léku á als oddi í London í kvöld. AFP

Manchester City er komið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en liðið valtaði yfir WBA á The Hawthorns í London í kvöld.

Leiknum lauk með 5:0-sigri City en staðan að loknum fyrri hálfleik var 4:0, City í vil.

WBA sá aldrei til sólar í leiknum en Ilkay Gündogan kom City yfir strax á 6. mínútu.

Joao Cancelo bætti við öðru marki City á 22. mínútu og Gündogan skoraði þriðja markið átta mínútum síðar.

Riyhad Mahrez skoraði fjórða mark City á 45. mínútu áður en Raheem Sterling bætti við fimmta markinu á 57. mínútu.

Manchester City er með 41 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur eins stigs forskot á Manchester United en þetta var sjöundi sigurleikur City í röð í deildinni.

WBA er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 11 stig, 8 stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert