Komumst í gegnum þetta saman (myndskeið)

Jürgen Klopp og lærisveinar hans hjá Liverpool mæta grönnunum í Everton á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta klukkan 17:30 á morgun. Liverpool er fallið niður í sjötta sæti deildarinnar eftir slæmt gengi að undanförnu, en Klopp segir skýringar á því. 

„Að búa til fótboltalið er eins og að byggja hús. Ef grunnurinn er ekki sterkur getur það verið valt. Við höfum misst þrjá leikmenn út allt tímabilið en af því við erum Liverpool þá búast allir við að við spilum áfram eins vel og það er erfitt,“ sagði Klopp. 

Liverpool varð enskur meistari á síðasta tímabili en nú er liðið 16 stigum á eftir toppliði Manchester City. „Þú verður að eiga nánast fullkomið tímabil til að vinna titilinn og þú mátt ekki gera mikið af mistökum,“ sagði Klopp. 

Hann viðurkennir að það hafi tekið á að lifa með kórónuveirunni. „Það hjálpar að geta mætt í vinnuna en ég get ekki beðið eftir að þetta sé búið. Við komumst í gegnum þetta saman,“ sagði Klopp.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann sport. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert