Þriðja mark Gylfa á Anfield og annað í sigurleik

Gylfi Þór Sigurðsson skorar úr vítaspyrnunni á Anfield í kvöld …
Gylfi Þór Sigurðsson skorar úr vítaspyrnunni á Anfield í kvöld og gulltryggir sigur Everton. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í kvöld sitt þriðja mark á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar Everton lagði þar Liverpool að velli, 2:0, í nágrannaslagnum.

Gylfi gerði fyrri tvö mörkin sín þar fyrir Swansea. Það fyrra 29. desember 2014 þegar hann gerði eina mark Swansea í 4:1-ósigri en það seinna 21. janúar 2017 þegar Gylfi skoraði dramatískt sigurmark liðsins þegar það lagði Liverpool óvænt að velli á Anfield, 3:2.

Þá var þetta 65. mark Gylfa í úrvalsdeildinni, í sínum 305. leik, og hann hefur aðeins skorað fleiri mörk en gegn Liverpool gegn fjórum félögum, Chelsea, Manchester United, Southampton og Fulham.

mbl.is