Stjóri Jóhanns að taka við Celtic?

Sean Dyche hefur stýrt Burnley frá árinu 2012.
Sean Dyche hefur stýrt Burnley frá árinu 2012. AFP

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley í ensku úrvalsdeildinni, þykir líklegastur til þess að taka við Skotlandsmeisturum Celtic.

Það er talkSport sem greinir frá þessu en Neil Lennon lét af störfum sem stjóri Celtic í gær eftir rúmlega tvö ár í starfi.

Þá hafa þeir Frank Lampard, Rafa Benítez og Roberto Martínez einnig verið orðaðir við stjórastöðuna hjá skoska félaginu ásamt Steve Clarke.

Dyche er samningsbundinn Burnley til sumarsins 2022 en þegar samningur hans rennur út verður hann búinn að stýra Celtic í tíu ár.

Jamie O'Hara og Darren Bent, fyrrverandi leikmenn Tottenham og fleiri liða í ensku úrvalsdeildinni, telja að Dyche sé rétti maðurinn í starfið hjá Celtic.

„Dyche hefur gert kraftaverk með Burnley undanfarin ár,“ sagði O'Hara.

„Hann hefur stýrt félaginu um miðja deild, með litla fjármuni til leikmannakaupa, og náð frábærum árangri með það til hliðsjónar,“ bætti O'Hara við.

„Mín skoðun er sú að hann sé búinn að taka Burnley eins langt og hann getur og kannski sé kominn tími á breytingar,“ bætti Bent við.

mbl.is