Hættur eftir vonbrigðatímabil

Neil Lennon, stjóri Celtic, er hættur.
Neil Lennon, stjóri Celtic, er hættur. AFP

Neil Lennon hefur látið af störfum sem knattspyrnustjóri Celtic í skosku úrvalsdeildinni.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en gengi liðsins á tímabilinu hefur verið langt undir væntingum.

Celtic er sem stendur í öðru sæti skosku deildarinnar með 64 stig, 18 stigum minna en topplið Rangers.

Celtic hefur unnið deildina undanfarin níu tímabil en nú er fátt sem getur komið í veg fyrir sigur Rangers sem vann síðast deildina árið 2011.

„Tímabilið hefur verið erfitt og fyrir því eru margar ástæður,“ sagði Lennon í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Celtic í dag.

„Það er bæði pirrandi og svekkjandi að okkur skuli ekki hafa tekist að ná sama flugi og undanfarin tímabil,“ bætti Lennon við.

John Kennedy, aðstoðarmaður Lennon, mun stýra liðinu tímabundið þangað til nýr stjóri finnst.

mbl.is