Mikill heiður að starfa fyrir félagið

Thomas Tuchel á hliðarlínunni í kvöld.
Thomas Tuchel á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Þetta var verðskuldaður sigur,“ sagði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, í samtali við BT Sport eftir 2:0-sigur liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge í London í kvöld.

Chelsea-menn voru mun sterkari aðilinn í leiknum en Ben Godfrey, varnarmaður Everton, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í fyrri hálfleik áður en Jorginho bætti við öðru marki Chelsea með marki úr vítaspyrnu um miðjan síðari háfleikinn.

„Þetta var erfitt í fyrri hálfleik en samt tókst okkur að stjórna leiknum frá A til Ö,“ sagði Tuchel.

„Í þeim síðari spiluðum við hraðar og hefðum hæglega getað skorað mun fleiri mörk. Ég var virkilega ánægður með Kai [Havertz] í leiknum og hann nýtti tækifærið sitt vel í byrjunarliðinu.

Hann er leikmaður sem á að vera afgerandi í sóknarleiknum og hann var það. Það eru miklir hæfileikar í leikmannahópnum og það er heiður að fá að starfa hérna.

Það er allt gert til þess að koma félaginu í fremstu röð sem er mjög jákvætt,“ bætti Tuchel við.

mbl.is