Skora á félögin tólf að endurskoða afstöðu sína

Ralph Hasenhüttl hjá Southampton og Brendan Rodgers hjá Leicester eru …
Ralph Hasenhüttl hjá Southampton og Brendan Rodgers hjá Leicester eru í samtökum knattspyrnustjóra. AFP

Samtök enskra knattspyrnustjóra hafa skorað á félögin tólf sem hyggjast stofna nýja ofurdeild að endurskoða afstöðu sína og setja hagsmuni fótboltans í forgang, frekar en sína eiginhagsmuni.

Í yfirlýsingu frá samtökunum, LMA, segir meðal annars að þau telji að slík deild myndi setja allan evrópskan fótbolta úr jafnvægi og myndi hafa gríðarlega miklar og alvarlegar afleiðingar.

„Ef toppnum á Evrópupíramídanum verður lokað fyrir öðrum mun það þegar í stað drepa niður drauma og metnað knattspyrnustjóra, þjálfara, leikmanna og stuðningsfólks. Eigendur félaganna eru þeirra gæslumenn og þeir bera þá ábyrgð að heiðarleiki leiksins skuli ávallt vera í forgangi en ekki eiginhagsmundir og fjárhagslegur ágóði.

Einmitt núna þarf fótboltinn á sem mestri samstöðu að halda, þegar tekist verður á við þær áskoranir sem fylgja því að koma honum aftur á rétta braut eftir kórónuveirufaraldurinn þar sem byggt verður á grunni samvinnu og samstöðu.

Við styðjum knattspyrnuforystuna til að bregðast við á þann hátt sem nauðsynlegt er og við hvetjum félögin sem standa að þessum tillögum um evrópska ofurdeild að endurskoða alla sína afstöðu og vinna frekar með hagsmuni heildarinnar í huga,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert