Frá Tottenham til Villarreal

Juan Foyth er kominn til Spánar.
Juan Foyth er kominn til Spánar. AFP

Argentínski knattspyrnumaðurinn Juan Foyth er genginn til liðs við Villarreal frá Tottenham. Þetta tilkynnti enska félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Foyth lék með Villarreal á láni frá Tottenham á síðustu leiktíð og ákvað spænska félagið að nýta sér forkaupsrétt sinn á leikmanninum.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en það er talið vera í kringum 15 milljónir punda. Foyth lék 32 leiki með Tottenham á ferlinum þar sem hann skoraði eitt mark.

Foyth, sem er 23 ára gamall, vann Evrópudeild UEFA með Villarreal á nýliðinni leiktíð en er uppalinn hjá Estudiantes í heimalandinu.

mbl.is