Margrét Lára um United: Af hverju er þessum mönnum ekki spilað?

„Af hverju ekki að gefa leikmanni eins og Donny van de Beek tækifæri gegn liði eins og Southampton í leik sem þeir eiga að stjórna,“ sagði Gylfi Einarsson þegar rætt var um lið Manchester United í Vellinum á Símanum Sport.

Manchester United gerði 1:1-jafntefli gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en Nemanja Matic var í byrjunarliði United í leiknum.

Það kom mörgum á óvart að sjá Serbann í byrjunarliðinu á kostnað leikmanna eins og van de Beeks og Jadons Sanchos.

„Manni finnst aðeins farið að hægjast á kallinum og ég átti ekki von á því að hann væri annar eða þriðji maður á blað,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir meðal annars þegar rætt var um Matic.

„Það er verið að fá leikmenn eins og Jadon Sancho og af hverju er ekki verið að spila þessum leikmönnum, líkt og Varane?

Við sjáum Lukaku koma beint inn í liðið hjá Chelsea. Af hverju ekki að setja þessa menn beint inn í liðið og venja hópinn við það strax,“ sagði Margrét Lára meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert