Erfiðara að fá vítaspyrnur eftir ummæli Klopps

Ole Gunnar Solskjær heilsar Jürgen Klopp fyrir leik.
Ole Gunnar Solskjær heilsar Jürgen Klopp fyrir leik. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United segir að ummæli sem Jürgen Klopp kollegi hans hjá Liverpool lét falla á síðasta tímabili hafi leitt til þess að lið hans fái færri vítaspyrnur en áður.

Í janúar sagði Klopp að hann hefði heyrt að Manchester United væri búið að fá fleiri vítaspyrnur á tveimur árum en hann hefði fengið á fimm og hálfu ári sem knattspyrnustjóri Liverpool.

„Við vonum bara að við fáum það sem við eigum skilið. Við hefðum átt að fá þrjár vítaspyrnur í síðustu tveimur leikjum. Ákveðinn knattspyrnustjóri lýsti í fyrra yfir áhyggjum af því að við skyldum fá dæmdar vítaspyrnur og frá þeirri stundu virðist sem það hafi verið erfiðara," sagði Solskjær á fréttamannafundi í dag.

„Frá þeim tímapunkti hef ég séð mikinn mun, en við verðum bara að setja þetta í hendur dómaranna og vona að þeir komist að réttri niðurstöðu," sagði Solskjær.

Manchester United á heimaleik gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á morgun en hann hefst klukkan 11.30.

mbl.is