Liverpool endurheimtir lykilmann

Trent Alexander-Arnold verður klár í slaginn um helgina.
Trent Alexander-Arnold verður klár í slaginn um helgina. AFP

Hægri bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold hefur jafnað sig af meiðslum og mun því geta tekið þátt í leik Liverpool gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla næstkomandi laugardag.

Þessu greinir enska dagblaðið The Telegraph frá í dag.

Alexander-Arnold hefur misst af síðustu leikjum Liverpool vegna smávægilegra meiðsla en hefur nú jafnað sig á þeim.

Fréttirnar eru kærkomnar fyrir Liverpool þar sem fastlega er búist við því að markvörðurinn Alisson og varnartengiliðurinn Fabinho missi af leiknum þar sem þeir eiga fram undan leik með brasilíska landsliðinu gegn Úrúgvæ í undankeppni HM 2022 aðfaranótt föstudags.

Þar sem leikur Watford og Liverpool fer fram í hádeginu á laugardeginum er ekki gert ráð fyrir því að þeir verði leikfærir.

Þá þurfti sóknarmaðurinn Diogo Jota frá að hverfa úr portúgalska landsliðshópnum í gær vegna vöðvameiðsla sem hann varð fyrir á æfingu með landsliðinu og því ríkir óvissa með þátttöku hans um helgina.

mbl.is