Klopp sá fljótasti í sögu Liverpool

Jürgen Klopp hefur gert magnaða hluti með Liverpool.
Jürgen Klopp hefur gert magnaða hluti með Liverpool. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool vann sinn 200. leik undir stjórn Jürgens Klopp í gær þegar liðið heimsótti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í gær.

Leiknum lauk með 5:0-stórsigri Liverpool en Liverpool leiddi með fjórum mörkum gegn engu í hálfleik.

Klopp tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í október 2015 eftir að Brendan Rodgers var rekinn frá félaginu.

Hann var að stýra sínum 331. leik hjá félaginu en enginn stjóri í sögu Liverpool hefur verið jafn fljótur að vinna 200 leiki og Klopp.

Skotinn Kenny Dalglish, sem stýrði Liverpool frá 1985 til 1991 og aftur frá 2011 til 2012 vann sinn 200. leik sem stjóri Liverpool í 333 leikjum og Bab Paisley þurfti 345 leiki til þess að vinna 200 leiki.

Liverpoolgoðsögnin Bill Shankly, sem er af mörgum talinn besti knattspyrnustjóri í sögu félagsins, þurfti 380 leiki til þessa að vinna 200 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert