Chelsea í úrslitaleikinn

Rüdiger fagnar marki sínu í kvöld.
Rüdiger fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Tottenham og Chelsea mættust í seinni undanúrslitaleik enska deildarbikarsins í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk með 1:0 sigri Chelsea og fara þeir bláklæddu því áfram í úrslitaleikinn eftir samanlagðan 3:0 sigur.

Fyrri hálfleikurinn var algjör eign gestanna í Chelsea. Antonio Rüdiger kom þeim yfir á 18. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Perluigi Gollini, markvörður Tottenham, fór þá í skelfilegt úthlaup, missti af boltanum og Rüdiger skallaði hann í slánna og inn. Heimamenn fengu nokkur ágætis færi til að jafna leikinn en heilt yfir voru gestirnir betri aðilinn. Þegar 40 mínútur voru liðnar af leiknum slapp Pierre-Emile Hojbjerg inn fyrir vörn Chelsea en markaskorarinn Rüdiger tók hann niður við vítateigslínuna. Andre Marriner dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu en eftir að Varsjáin hafði skoðað atvikið varð niðurstaðan aukaspyrna rétt við línuna. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því 0:1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Úthlaup Gollini í marki Rüdiger var ekki gott.
Úthlaup Gollini í marki Rüdiger var ekki gott. AFP

Þegar rúmlega tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleik dæmdi Andre Marriner aftur vítaspyrnu. Lucas Moura komst þá einn gegn Kepa Arrizabalaga en sá spænski gerði frábærlega, tæklaði boltann í burtu og bjargaði sínum mönnum. Marriner hins vegar dæmdi af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vítaspyrnu en tók dóminn réttilega til baka eftir að hafa skoðað þetta aftur í skjánum. Önnur vítaspyrnan sem Marriner þurfti að hætta við að dæma í leiknum. Varsjáin átti svo eftir að spila enn stærra hlutverk. Þegar tæplega 65. mínútur voru liðnar misstu Kepa og Jorginho boltann klaufalega í sameiningu og Harry Kane hélt hann hefði jafnað. Hann var hins vegar fyrir innan þegar Lucas Moura gaf boltann á hann og markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Ansi óþægilegt atvik átti sér svo stað þegar leikurinn stöðvaðist í dágóðan tíma vegna atvikst í stúkunni. Einn stuðningsmaður Tottenham var þá að glíma við einhvers konar veikindi og þurfti aðhlynningu í stúkunni. Ekki hefur verið staðfest hvað gerðist en líklega var um hjartaáfall eða álíka að ræða.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og Chelsea er því komið í úrslitaleikinn þar sem liðið mun mæta annað hvort Arsenal eða Liverpool. Fyrri leikur þess einvígis fer fram annað kvöld.Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Tottenham 0:1 Chelsea opna loka
90. mín. Uppbótartími verður að lágmarki sex mínútur, en leikurinn er ennþá stopp svo það verður líklega eitthvað meira.
mbl.is