Framtíð Gylfa Þórs ræðst í vikunni

Gylfi Þór Sigurðsson á að baki 78 A-landsleiki fyrir Ísland.
Gylfi Þór Sigurðsson á að baki 78 A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á miðvikudaginn verður tekin ákvörðun í máli knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðarsonar en um helgina bárust fréttir af því að hann yrði áfram laus gegn tryggingu fram til 19. janúar.

Þetta staðfesti lögreglan í Manchester í samtali við The Sun en Gylfi var handtekinn á heimili sínu í Bretlandi 16. júlí síðastliðinn, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.

Hann var strax látinn laus gegn tryggingu og hefur það fyrirkomulag verið framlengt í þrígang en tryggingin var fyrst framlengd í ágúst, síðar í október og loks um nýliðna helgi.

Það að lögreglan í Manchester hafi ákveðið að framlengja trygginguna um nokkra daga í þetta skiptið bendir til þess að rannsóknin í máli Gylfa Þórs sé á lokametrunum.

Lögreglan í Manchester hefur ekki viljað tjá sig um gang rannsóknarinnar í samtali við mbl.is en á miðvikudaginn má gera ráð fyrir því að Gylfi verði annaðhvort ákærður fyrir brot sín eða þá að málið verði látið niður falla.

Þeir lögfræðingar sem mbl.is hefur rætt við segja ýmislegt benda til þess að Gylfi Þór verði ákærður í vikunni enda lítil ástæða fyrir lögreglu að framlengja trygginguna um nokkra daga ef það á að fella málið niður nokkrum dögum síðar.

Gylfi Þór hefur ekkert tjáð sig um málið frá því það kom fyrst upp síðasta sumar en fari svo að hann verði fundinn sekur um brot sín gæti hann átt fangelsisvist yfir höfði sér.

Hann hefur ekkert leikið með Everton á leiktíðinni eða frá því málið kom upp og bendir ýmislegt til þess að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir félagið þar sem samningur hans í Bítlaborginni rennur út í sumar.

Þá hefur því einnig verið haldið fram að Gylfi Þór hafi ekki áhuga á því að spila fótbolta í framtíðinni, sama hvernig mál hans fara, og að hann sé hættur allri knattspyrnuiðkun.

Gylfi á að baki 318 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Swansea, Tottenham og Everton þar sem hann hefur skoað 67 mörk. Þá á hann að baki 78 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað 25 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert