Leggur 100 milljónir punda í Everton

Leikmenn Everton hafa ekki oft haft tækifæri til að fagna …
Leikmenn Everton hafa ekki oft haft tækifæri til að fagna í vetur. AFP

Auðkýfingurinn Farhad Moshiri hefur lagt 100 milljónir punda til að efla enska knattspyrnufélagið Everton, þar sem hann er aðaleigandi, með það að markmiði að rífa það upp úr þeirri lægð sem það hefur gengið í gegnum í vetur.

Moshiri hefur keypt hlutabréf fyrir þessa upphæð sem á að verja í styrkingu liðsins sem hefur valdið miklum vonbrigðum og er í sextánda sæti af tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar í stað þess að vera í baráttu um Evrópusæti eins og stefnt var að.

Moshiri, sem er 66 ára gamall Írani með breskt ríkisfang og búsettur í Mónakó, var hluthafi í Arsenal frá 2007 til 2016 en þá yfirgaf hann Lundúnafélagið, seldi hlut sinn þar og gerðist aðaleigandi Everton með kaupum á 49,9 prósentum hlutabréfa félagsins.

Everton er án knattspyrnustjóra þessa dagana eftir að Rafael Benítez var sagt upp störfum en hann tók við liðinu síðasta sumar.

mbl.is