Suárez aftur til Liverpool?

Luis Suárez lék með Liverpool frá 2011 til ársins 2014.
Luis Suárez lék með Liverpool frá 2011 til ársins 2014. AFP/Paul Ellis

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez gæti snúið aftur í enska boltann á næstu mánuðum.

Það er ESPN sem greinir frá þessu en samningur hans við uppeldisfélag sitt Nacional í heimalandinu rennur út í október.

Stjórnarformaður félagsins, José Fuentes, tilkynnti á á dögunum að framherjinn myndi yfirgefa félagið í lok október þegar tímabilinu lýkur þar í landi.

Suárez ætlar sér að vera í formi þegar heimsmeistaramótið í Katar hefst í lok nóvember og því er hann staðráðinn í að finna sér nýtt félag.

Hann hefur verið orðaður við Aston Villa á Englandi og þá hafa stuðningsmenn Liverpool einnig kallað eftir því að leikmaðurinn snúi aftur til Bítlaborgarinnar.

Framherjinn lék með Liverpool frá 2011 til ársins 2014 og skoraði 82 mörk í 133 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

mbl.is