Maguire meiddist í gær

Harry Maguire (t.v.) í leiknum í gær.
Harry Maguire (t.v.) í leiknum í gær. AFP/Ben Stansall

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, meiddist aftan á læri í 3:3-jafntefli Englands og Þýskalands í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Áður hafði verið greint frá því að John Stones, miðvörður nágrannana í Manchester City, hafi meiðst aftan á læri og farið af velli í fyrri hálfleik í gær af þeim sökum.

Maguire lék hins vegar allan leikinn.

„John Stones fann fyrir eymslum aftan í læri og ég held að Harry hafi sömuleiðis fundið til þar,” sagði Gareth Soutgate landsliðsþjálfari á blaðamannafundi eftir leikinn.

Harry Kane landsliðsfyrirliði tók enn dýpra í árinni og sagði á fundinum:

„Hann meiddist talsvert þarna undir lokin og spilaði fimm til tíu mínútur til viðbótar nánast á öðrum fæti.

Það er til marks um frábæran karakter hjá honum. Ég er mjög stoltur af honum vegna þessa.“

Þátttaka Maguire í Manchester-slagnum gegn Man. City  næstkomandi sunnudag er því í óvissu en hann hefur að vísu þurft að verma varamannabekk Man. United að undanförnu þar sem Raphael Varane og Lisandro Martínez hafa myndað miðvarðapar Rauðu djöflanna með góðum árangri að undanförnu.

mbl.is