Einn dýrasti knattspyrnustjóri sögunnar

Graham Potter hefur ekki staðið undir væntingum hjá Chelsea.
Graham Potter hefur ekki staðið undir væntingum hjá Chelsea. AFP/Darren Staples

Graham Potter, knattspyrnustjóri Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, er á meðal dýrustu stjóra sögunnar.

Þetta kom fram í ársreikningi enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton sem birtur var í vikunni en þar kemur fram að Chelsea hafi borgað félaginu 21,5 milljónir punda fyrir þjónustu Potters.

Potter gerði frábæra hluti með Brighton áður en Chelsea ákvað að ráða hann sem knattspyrnustjóra í september á síðasta ári.

Nagelsmann dýrari

Gengi Chelsea undir hans stjórn hefur hins vegar verið afar dapurt og situr liðið sem stendur í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig.

Potter hefur verið mjög reglulega orðaður við brottför frá félaginu, undanfarnar vikur, en hann er með í kringum 37% sigurhlutfall sem stjóri Chelsea.

Líkt og áður sagði borgaði Chelsea 21,5 milljónir punda fyrir Potter sem gerir hann að næst dýrasta stjóra sögunnar en Bayern München borgaði 22 milljónir punda fyrir Julian Nagelsmann, þegar liðið sótti hann frá RB Leipzig, sumarið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert