Áfall fyrir Leeds

Georginio Rutter og Tyler Adams í leik með Leeds í …
Georginio Rutter og Tyler Adams í leik með Leeds í síðasta mánuði. AFP/Oli Scarff

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Tyler Adams verður ekki meira með Leeds á tímabilinu eftir að hafa gengist undir skurðaðgerð vegna meiðsla aftan á læri.

Adams meiddist á æfingu hjá Leeds fyrr í mánuðinum en var þrátt fyrir það valinn í bandaríska landsliðshópinn fyrir leiki í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku í yfirstandandi landsleikjaglugga.

Vegna meiðslanna þurfti miðjumaðurinn vinnusami að draga sig úr hópnum og verður frá um skeið.

Leeds er í harðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni þar sem liðið er í 14. sæti, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Ítalinn Willy Gnonto og Austurríkismaðurinn Max Wöber meiddust þá í leikjum með landsliðum sínum um helgina og gætu misst af næsta leik Leeds, útileik gegn toppliði Arsenal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert