Maldonado: Bíllinn er að batna

Pastor Maldonado hjá Williams er bjartsýnn fyrir kanadíska kappaksturinn í Montreal og vonar að draugar ömurlegra daga í Mónakókappakstrinum á dögunum vakni ekki upp.

Maldonado vonast til að færa liði sínu sæg af stigum í Montreal en hann vann óvæntan en öruggan sigur í Spánarkappakstrinum í Barcelona fyrir rúmum þremur vikum. 

„Við höfum lagt hart að okkur við að bæta bílinn og mér finnst hann verða betri og betri með degi hverjum. Því geri ég mér góðar vonir fyrir Montreal, það er braut sem ég kann virkilega vel við.

Þar er að finna skemmtilega blöndu af beygjum inn á hraðamikla beina kafla og hægar hlykkbeygjur í framhaldi af þeim. Hraðatilfinningin vex vegna þess hversu veggirnir eru nálægt brautinni,“ segir Maldonado.


 

mbl.is