Renault þreifar á Force India

Fulltrúar Force India og Renault ræddust við í Spa þar …
Fulltrúar Force India og Renault ræddust við í Spa þar sem franski bílaframleiðandinn þreifaði fyrir sér með kaup á liðinu. mbl.is/afp

Það er ekki einungis að Renault hafi verið sagður við það að yfirtaka Lotusliðið. Komið er í ljós, að aðaleigandi Force India hafi líka átt í viðræðum við franska bílsmiðin um kaup á meirihluta hlutafjár í liði hans.

Þetta staðfestir liðsstjórinn Vijay Mallya við breska akstursíþróttaritið Autosport. Blasa því a.m.k. þrír möguleikar við Renault sem er að vega og meta framtíð sína í formúlunni. Í fyrsta lagi að halda áfram eingöngu sem vélaframleiðandi.

Í öðru lagi að mæta aftur til leiks með sitt eigið keppnislið, eða í þriðja lagi draga sig með öllu út úr greininni þegar vélarsamningar við Red Bull og Toro Rosso renna út í árslok 2016.

Mallya segir að Renault hafi átt frumkvæði að viðræðunum en fulltrúi franska bílsmiðsins í þeim var sérlegur sendifulltrúi hans og ráðgjafi, Alain Prost. Fór fundurinn fram á kappaksturshelginni í Spa í Belgíu.

Mallya segir að Prost hafi tjáð sér að Renault ætti í viðræðum við fleiri lið, þar á meðal Lotus, sem talið hefur verið standa fremst í röðinni til hugsanlegrar yfirtöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert