Williams ræður Bottas og Stroll

Lance Stroll er aðeins 18 ára og hefur keppni í …
Lance Stroll er aðeins 18 ára og hefur keppni í formúlu-1 á næsta ári með Williams.

Williamsliðið staðfesti í morgun ráðningu kanadíska ökumannsins Lance Stroll sem keppnisþór sinn á næsta ári við hlið Valtteri Bottas. Stroll er ríkjandi Evrópumeistari í formúlu-3.

Stroll, sem er aðeins 18 ára, tekur við sæti sem Felipe Massa situr í út vertíðina, en hann tilkynnti í sumar brottför sína úr formúlu-1.

Verður Stroll yngsti keppnismaðurinn á næsta ári og sá næstyngsti til að hefja keppni nokkru sinni. Aðeins Max Verstappen hjá Red Bull var yngri er hann hóf keppni með Toro Rosso.

Vertíðin 2007 verður sú fimmta hjá Williams af hálfu Bottas.

Stroll gekk til liðs við ökumannaakademíu Ferrari aðeins 11 ára gamall og hóf hann keppni á kappakstursbílum árið 2014, en keppti á körtum þar á undan. Hann vann formúlu-4 á Ítalíu það ár og tók síðan skrefið upp í formúlu-3 í fyrra, 2015.

Hann sagði skilið við akademíu Ferrari eftir að hann réðist til Williams sem þróunarökumaður fyrir árið í ár. Þrátt fyrir brottförina hélt hann áfram að keppa fyrir Prema, undirlið Ferrari í formúlu-3, og vann í ár titilinn með sigri í 14 mótum af 30.

Loks er Stroll fyrsti kanadíski ökumaðurinn til að keppa í formúlu-1 frá dögum Jacques Villeneuve, sem hætti keppni á miðju ári 2006, níu árum eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil ökumanna. Titlinum landaði hann sem ökumaður Williams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert