Vildu ugga sem auglýsingapláss

Hákarlsugginn er áberandi á bílunum, seo sem á keppnisbíl McLaren.
Hákarlsugginn er áberandi á bílunum, seo sem á keppnisbíl McLaren. AFP

Átök virðast hafa átt sér stað milli keppnisliða um hönnunarforsendur 2017-bílanna. Red Bull setti sig upp á móti hákarlsugganum svonefnda sem Niki Lauda segir að mörg lið hafi séð sem ákjósanlegt pláss fyrir auglýsingar.

Lauda, sem er stjórnarformaður Mercedesliðsins, segir að lið hans hafi stutt afstöðu Red Bull sem vildi banna hákarlsuggann aftur úr kæliturni bílvélanna margt löngu áður en bílarnir voru frumsýndir.

Sumum finnst ugginn og ennfremur T-vængurinn sem sást á mörgum bílum við reynsluakstur vetrarins til verulegs lýtis fyrir bílana sem ella þóttu áræðnir vegna breiðari dekkja og aukins hraða.

Christian Horner, liðsstjóri Red Bull, hefur upplýst að lið hans hafi viljað banna uggann en orðið undir í atkvæðagreiðslu í anda „hefðbundinnar sjúklegrar tortryggni“ á vettvangi formúlu-1.

„Ugginn olli miklum umræðum í stýrinefndinni,“ hefur austurþýska útvarpið ORF eftir Lauda sem gaf til kynna að Mercedes hafi staðið með Red Bull. „Hin liðinu sögðu við getum sett þar merki styrktaraðila og þar við sat,“ bætti Lauda við.

Þess ber þó að geta að ekkert liðanna var með auglýsingar á ugganum þegar 2017-bílarnir voru frumsýndir. Kemur í ljós við fyrsta mót, um aðra helgi, hvort breyting verður þar á.

mbl.is