Aftur er Verstappen fljótastur

Max Verstappen á Red Bull toppaði einnig lista yfir hröðustu hringi seinni æfingar dagsins í Montreal rétt eins og á þeirri fyrri. Ljóst er að ökumenn Mercedes sýndu ekki hvað í bílum þeirra býr.

Verstappen getur vart svarað betur fyrir sig vegna harðar gagnrýni úr öllum áttum á akstur hans í undanförnum mótum, en þar hefur hann gert sig sekan um hver mistökin af öðrum og margoft ekki komist í mark.

Rúmri tíund úr sekúndu á eftir honum að tíma varð Kimi Räikkönen á Ferrari og Daniel Ricciardo á Red Bull átti þriðja besta hringinn, var 0,4 sekúndum lengur í förum en liðsfélagi hans.

Lewis Hamilton á Mercedes var 0,6 sekúndum lengur með hringinn en til þess var tekið að hvorki hann né liðsfélaginn Valtteri Bottas hafa brúkað mýkstu dekkjagerðina á æfingum dagsins. Talið er að þau bjóði upp á enn hraðari akstur en þeir sýndu í dag.

Sebastian Vettel á Ferrari var tveimur tíundu lengur í förum en Hamilton og sjötta besta hringinn átti Valtteri Bottas á Mercedes, sem var rúmum 0,8 sekúndum hægari en Verstappen.

Fyrsta tuginn á lista yfir hröðustu hringi fylltu svo Romain Grosjean á Haas, Esteban Ocon og Sergio Perrez á Force India og Fernando Alonso á McLaren.

mbl.is