Red Bull til Honda

Carlos Sainz á Renault (nær) ekur framhjá Daniel Ricciardo á ...
Carlos Sainz á Renault (nær) ekur framhjá Daniel Ricciardo á Red Bull í Mónakó í vor. AFP

Slitnað hefur upp úr samstarfi Renault og Red Bull en síðarnefnda liðið mun brúka vélar frá Honda í bílum sínum á næstu tveimur árum.

Fyrir átti Honda í samstarfi við dótturliðið Toro Rosso sem notað hefur Hondavélar það sem af er vertíðar. Munu liðin tvö fá samskonar vélar frá og með næstu áramótum. 

Fulltrúi Honda segir að með því að vinna með tveimur liðum fái vélarframleiðandinn tvöfalt meira gagnamagn til þróunar véla sinna. Muni það styrkja fyrirtækið í þeirri viðleytni þess til að vinna mót og meistaratitla.

Liðsstjóri Red Bull, Christian Horner, segir að eftir ítarlega skoðun og umhugsun hafi það verið sannfæring stjórnenda liðsins að það væri rétt stefna að ganga til samstarf við Honda.

Í þetta hefur virst horfa undanfarnar vikur og ljóst að Renault var fyrir margt löngu orðið þreytt á stjórum Red Bull, bæði vegna neikvæðra yfirlýsinga þeirra og tilrauna til að draga á langinn að ákveða sig hvort liðið ætlaði að vinna áfram með Renault eða fara til samstarfs við Honda.

Með ákvörðun Red Bull lýkur 12 ára samstarfi liðsins og forvera þess við Renault sem vélarframleiðanda þeirra.

mbl.is