Segist betri en Vettel

Lewis Hamilton segist ætla láta almenningi það eftir að segja til um hvor titilkandídatinn í ár sé hæfileikaríkari ökumaður. Sjálfur segist hann sannfærður um að í því efni standi hann sjálfur skör framar en Sebastian Vettel.

Á óvart þótti koma er Hamilton vann ráspólinn í Búdapest en þar var hann sprækastur á rennvotum brautum. Átti Mercedes báða fremstu bílana en ökumenn Ferrari urðu í þriðja og fjórða sæti.

Allt féll með Hamilton sem vann þýska kappaksturinn um síðustu helgi, eftir að byrja akstur af 14. rásstað, og síðan þann ungverska í dag.  Ferraribílarnir virtust ögn öflugri á þurrum brautum en rigningin setti strik í reikninginn í tímatökunni. 

Spurður hvort tímatökuhringurinn þar sem Vettel átti brösugra gengi að fagna sannaði að hann sjálfur væri betri en Ferrariþórinn, svaraði Hamilton: „Auðvitað veit ég svarið við þessari spurningu en það er fyrir ykkur blaðamennina og fólkið að dæma um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert