Hrósa höfuðhlífinni

Fernando Alonso er á því að hin umdeilda hjálmhlíf sem birtist á keppnisbílum formúlu-1 í ár hafi sannað gildi sitt í hópárekstrinum í Spa og bjargað Charles Leclerc frá meiðslum.

Bíll Alonso tókst á loft er ekið var aftan á hann og sveif yfir Sauberbíl Leclerc og skall niður á honum í leiðinni.  Tók hjálmhlífin á sig höggið.

„Ég flaug yfir bílinn hans. Hjálmhlífin kom sér vel í dag. Hún hjálpaði að ekki varð verra slys út úr þessu. Það þarf engra frekari sannanna, það var gott að hafa hlífina,“ sagði Alonso.

Hann sagði það óskiljanlegt hvers vegna ökumenn misreiknuðu bremsusvæðið svo alvarlega. „Menn koma inn í beygjuna á hraða sem útilokað er að menn nái beygjunni á.“

Sjálfur tók Leclerc undir með Alonso og þakkaði hlífinni að ekki fór verr. „Tvímælalaust hjálpaði hlífin manni,“ sagði hann og harmaði brottfall úr keppni.

Mercedesstjórinn  Toto Wolff var á sömu skoðun og Alonso og Leclerc og sagði áreksturinn staðfesta mikilvægi hlífarinnar og nauðsyn hennar. „Þetta hefði getað verið mjög andstyggilegt. Ég er ánægður með hlífina á bílunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert