Dæmdir úr leik

Esteban Ocon á ferð á Force India bílnum í kappakstrinum ...
Esteban Ocon á ferð á Force India bílnum í kappakstrinum í Austin. AFP

Esteban Ocon á Force India og Kevin Magnussená Haas hafa  verið dæmdir úr leik á grundvelli skrítinnar reglu er kveður á um hámarks bensínstreymi í eldsneytiskerfi keppnisbíla formúlul-1.

Hámarksstreymi má vera 100 kíló/klst. og auk þess mega ökumenn að hámarki brúka 105 kíló af bensíni í kappakstri, sem tekur nær alltaf rúmlega hálfa aðra klukkustund.

Reglur þessar hafa sætt gagnrýni enda knýja þær ökumenn til sparaksturs í keppninni en ekki hraðaksturs eins og kappakstur gengur út á.

Af úrskurði eftirlitsdómara kappakstursins virðist sem Ocon hafi brotið regluna um streymishámark og Magnussen regluna um 105 kílóin. Mun sá danski hafa notað 100 grömm  umfram 105 kílóin, eða sem svarar einum desilítra.

Ocon kom í mark í áttunda sæti og Magnussen því níunda. Sæti þeirra erfa Brendon Hartley á Toro Rosso og Sergio Perez á Force India. Þá flyst Marcus Ericsson á Sauber upp í tíunda og síðasta stigasætið.

Kevin Magnussen er sagður hafa brúkað meira eldsneyti í Austin ...
Kevin Magnussen er sagður hafa brúkað meira eldsneyti í Austin en leyfilegt var. AFP
mbl.is