Fljótastur þriðju æfinguna í röð

Max Verstappen á Red Bull setti besta tímann á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Mexíkó. Var það þriðja æfingin í röð sem hann er í toppsætinu því hann ók hraðast á báðum æfingum gærdagsins.

Verstappen setti brautarmet 1:16,284 á hraðasta hring sínum, í blálok æfingarinnar. Var hann tæplega 0,3 sekúndum fljótari en Lewis Hamilton á Mercedes og Sebastian Vettel á Ferrari, en á titilkandidötunum munaði aðeins 28 þúsundustu úr sekúndu.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Daniel Ricciardo á Red Bull, Kimi Räikkönen á Ferrari, Charles Leclerc á Sauber, Carlos Sainz á Renault, Pierre Gasly á Toro Rosso, Marcus Ericsson á Sauber og Nico Hülkenberg á Renault.

Vegna vætu á brautinni biðu ökumenn með að setja tíma þangað til helmingur tímans var úti. Þornaði aksturslínan fljótt og brautartímar bötnuðu að sama skapi hratt.

Valtteri Bottas á Mercedes varð fyrir því seint á æfingunni að bilun kom upp í vökvakerfi bílsins svo hann varð að leggja við brautarkant. 

mbl.is