Carlos Sainz með besta tímann

Carlos Sainz labbar heim að bílskúr í Barcelona vegna bilunar ...
Carlos Sainz labbar heim að bílskúr í Barcelona vegna bilunar í McLarenbílnum. AFP

Þriðja degi í seinni viku þróunaraksturs formúluliðanna í Barcelona lauk með því að Carlos Sainz á McLaren tróndi á toppi lista yfir hröðustu hringi dagsins. Spurning vaknar hvort topplið Mercedes og Ferrari hafi ekið með sandpoka, eins og sagt er þegar menn reyna að villa fyrir keppinautunum um ágæti bíla sinna.

Síðustu daga hefur verið áberandi hversu aftarlega ökumenn Mercedes og Ferrari hafa setið á fyrrnefndum lista. Spurt er hvort rétt geti verið að eitt af slakari liðunum í fyrra sé allt í einu orðið topplið  á ný?

Þannig setti Sainz í dag besta brautartíma sem sést hefur við þróunraksturinn í þessri viku og hinni fyrri. Hraðasti hringur hans mældist 1:17,144 mín. Bætti hann tíma sem Nico Hülkenberg setti á Renault í síðustu viku.

Sergio Perez á Racing Point ók næsthraðast en var 0,7 sekúndum lengur með hringinn en Sainz.

Dagurinn var erfiður fyrir  Ferrari, sem missti mikinn aksturstíma vegna vélrænnar bilunar hjá Sebastians Vettel í morgun. Gerðist þetta eftir 40 hringja akstur en hvorki Vettel né Charles Leclerc gátu ekið meira þann daginn. Tími Vettels frá í morgun dugði til þriðja sætis.

Kimi Räikkonen á Alfa Romeo átti fjórða besta hringinn, Romain Grosjean þann fimmta og  Max Verstappen á Red Bull þann sjötta besta. Síðan komu Daniil Kvyat á Toro Rosso, Valtteri Bottas og Lewis Hamilton á Mercedes, Nico Hülkenberg á Renault og Robert Kubica á Willilams. Þeir Bottas og Hamilton settu áttunda og níunda besta tímann og voru 1,7 sekúndum lengur með sína bestu hringi en Sainz.

Sainz og Kubica óku fleiri hringi en aðrir eða 130 hvor og Verstappen 128.

Ef allt er með felldu virðist McLaren hafa bætt bíl ...
Ef allt er með felldu virðist McLaren hafa bætt bíl sinn mjög frá í fyrra. AFP
mbl.is