Einbeitum okkur að því jákvæða

Stemmningin er mjög góð í öllum hópnum, allir leikmennirnir eru brjálaðir og hungrar í sigur," sagði Einar Þór Daníelsson, fyrirliði og einn leikreyndasti leikmaður KR, þegar Morgunblaðið ræddi við hann árdegis í gær. Þá var fyrirliðinn staddur heima hjá sér, en síðar um daginn var tekin æfing á KR-vellinum og svo var haldið suður til Keflavíkur þar sem liðið mun dvelja fram að leik.
 Einar Þór gat ekki tekið þátt í úrslitaleiknum fræga gegn Skagamönnum fyrir tveimur árum, tók þá út leikbann. "Sá leikur var auðvitað hreinasta hörmung og við erum ákveðnir í að láta slíkt ekki endurtaka sig. Nú höfum við fengið tækifæri til þess, fyrr en margir áttu von á, og vonandi berum við gæfu til þess að nýta okkur það," segir Einar.

Sterk liðsheild

 Einar Þór segir að vissulega sé ánægjulegt að úrslitaleikur um titilinn fari fram á heimavelli KR í lokaumferðinni. "Við byrjuðum tímabilið ekki vel og áttum í vandræðum í fyrri umferðinni, en stuðningsmenn liðsins sneru ekki við okkur bakinu og það var geysilega dýrmætt. Við ákváðum svo að taka okkur saman í andlitinu og höfum leikið miklu betur í seinni umferðinni, ef síðasti leikur í Keflavík er undanskilinn."
 Fyrir tapleikinn í Keflavík í síðustu umferð höfðu KR-ingar unnið sjö leiki í röð og voru með markatöluna 17:0 úr þeim viðureignum. "Við náðum að þétta vörnina og lykillinn að velgengninni er fólginn í sterkri liðsheild og öflugum anda. Enginn einn leikmaður hefur skarað sérstaklega fram úr, heldur berjast allir fyrir liðið og eru tilbúnir til að gera sitt besta. Stemmningin hefur einnig verið mjög góð, enda sérgrein Atla Eðvaldssonar þjálfara og hann er fáum líkur í þeim efnum. Nú nýtur hann sín vel og á eflaust eftir að koma okkur í rétt ástand."
 Fyrirliðinn á von á mikilli aðsókn í Frostaskjólið í dag. "Það verður troðfullur völlur og stemmningin eflaust gríðarleg. Stuðningsmenn okkar hafa staðið með okkur þótt á móti hafi blásið og við munum vonandi ekki valda þeim vonbrigðum í dag. Við hugsum ekki um hið neikvæða, heldur einbeitum okkur að því jákvæða og hversu gaman verður í kvöld ef titillinn verður okkar."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert