Diego meðal bestu manna á Spáni

Diego Johannesson, leikmaður Real Oviedo.
Diego Johannesson, leikmaður Real Oviedo. Af netinu

Diego Jóhannesson, leikmaður Real Oviedo í 1. deildinni á Spáni, er í úrvalsliði fyrri hluta tímabilsins að mati spænsku úrvarpsstöðvarinnar Onda Cerro, en þetta kemur fram á Fótbolti.net í kvöld.

Diego, sem er 22 ára gamall hægri bakvörður, komst fyrst í sviðsljósið undir lok árs 2014, en hann hafði þá verið að leika vel með Real Oviedo í spænsku 2. deildinni. Hann ásamt liðsfélögum sínum komst upp um deild og hefur liðið heldur betur komið á óvart á þessu tímabili.

Það situr í 3. sæti deildarinnar eftir fyrri hlutann og hefur Diego verið magnaður í liðinu, en hann á íslenskan föður og vonast eftir því að geta komist í íslenska landsliðshópinn. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, hefur rætt við Diego, en hann er þó ekki kominn með íslenskt vegabréf.

Spænska útvarpsstöðin Onda Cerro hefur valið úrvalslið nýstirna í fyrri umferð deildarinnar en þar er Diego í hægri bakvarðarstöðunni. Hann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Oviedo en hann var valinn maður leiksins í 1:0 sigri á Real Zaragoza í vikunni.

mbl.is