Ronaldo vill fara til Manchester United

Cristiano Ronaldo .
Cristiano Ronaldo . AFP

Sky Sports greinir frá því nú í kvöld að Cristiano Ronaldo hafi áhuga á því að snúa aftur til Manchester United. Þetta hefur fréttastofan eftir heimildarmanni sínum sem sagður er náinn Ronaldo, en kappinn vill yfirgefa Madrid.

Manchester United seldi Ronaldo til Real Madrid árið 2009 fyrir 80 milljónir punda en félagið hefur að minnsta kosti einu sinni áður reynt að krækja í Portúgalann frá Real Madrid.

Í frétt Sky Sports kemur fram að forráðamenn United fari sér hægt í þessum málum en flestir á Old Trafford telja að Ronaldo verði áfram í Madríd.

Aðstoðarmenn Ronaldo hafa hins vegar sagt honum að finna sér nýtt félag utan Spánar, þar sem hann er sakaður um að hafa svikist undan skattgreiðslum á milli 2011 og 2014.

Ekki eru mörg félög sem hafa efni á Ronaldo eða launakröfum hans.

Paris Saint Germain er sagt áhugasamt ásamt AC Milan en nýir kínverskir eigendur félagsins hafa verið í sambandi við umboðsmann kappans, Jorge Mendes.

Kína væri annar möguleiki en þar opnast félagaskiptaglugginn á morgun. Talið er hins vegar líklegt að Ronaldo vilji halda kyrru fyrir í Evrópu.

Real Madrid mun aftur á móti gera allt til þess að halda kappanum sem hefur slegið öll met í hvítu treyjunni. Leyfi félagið honum að yfirgefa Madrid er United aðeins eitt af örfáum félögum sem kappinn vill fara til.

mbl.is