Vill að Messi spili minna fyrir HM

Lionel Messi er fyrirliði argentínska landsliðsins sem mæti Íslendingum á ...
Lionel Messi er fyrirliði argentínska landsliðsins sem mæti Íslendingum á HM. AFP

Forseti argentínska knattspyrnusambandsins vill að Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins, spili minna með Barcelona til loka tímabilsins svo hann mæti ferskur til leiks á HM í Rússlandi í sumar.

Messi og samherjar hans í argentínska landsliðinu verða fyrstu mótherjar Íslendinga á HM en leikurinn fer fram í Moskvu laugardaginn 16. júní.

Messi hefur byrjað inná í 33 af 39 leikjum Barcelona á leiktíðinni og hefur Ernesto Valverde þjálfari Börsunga aðeins hvílt Messi í þremur leikjum sem allir voru í bikarkeppninni.

„Ég vona að allir leikmenn okkar mæti til Rússlands í því formi sem þeir eru núna. Sergio Agüero hefur verið spila frábærlega og Messi er alltaf góður,“ sagði Claudio Tapia, forseti argentínska knattspyrnusambandsins í viðtali við argentínska netmiðilinn TYC Sports.

„Við höfum rætt við Messi að fara vel með sig og um að hann spili minna fyrir Barcelona.“

Tapia segir að Argentína sé að undirbúa að mæta landsliði Katalóníu í vináttuleik í júní fyrir HM

mbl.is